Þjálfun
BATTAR hafa rekið einkaþjálfun í knattspyrnu í meira en 10 ár. Við sérhæfum okkur í nákvæmni sendinga og móttöku á bolta, umhverfisskynjun leikmanna og hraðri og réttri ákvarðanatöku. Við höfum þróað æfingakerfi okkar mikið á þessum tíma, en þrátt fyrir það þá erum við að vinna með sömu grunnæfingarnar og í upphafi. Það er vegna þess að við vitum að þær virka og gera iðkendur okkar betri í grunnþáttum knattspyrnunnar. Þjálfarar BATTA leggja mikinn metnað í þjálfunina, að hún sé einstaklingsmiðuð og sníða æfingarnar að getu hvers og eins iðkanda. Rík áhersla er lögð á jákvætt og uppbyggilegt andrúmsloft á æfingum, sem ýtir undir og styrkir sjálfstraust iðkenda.
Einkaþjálfun
Í einkaþjálfuninni er megináhersla lögð á sendingar, fyrstu snertingu og móttöku á bolta. Framkvæmd, nákvæmni og hraði sendinga, móttaka og fyrsta snerting á bolta, rétt beiting hægri og vinstri fótar, líkamsstaða við móttöku og sendingu á bolta eru meðal þeirra fjölmörgu atriða sem lögð er áhersla á í þjálfuninni. Auk þessa leggjum við mikla áherslu á að bæta umhverfisskynjun leikmanna og hraða og rétta ákvarðanatöku þeirra.
Iðkendur í endurhæfingu
Einn af leiðinlegum fylgifiskum knattspyrnunnar eru meiðsli.
BATTAR bjóða upp á þjálfun sem er tilvalin fyrir leikmenn sem eru að stíga upp úr og jafna sig eftir meiðsli en vilja halda sér á tánum. Í henni eru æfingarnar sniðnar að þörfum, ástandi og stöðu leikmanns í bataferlinu. Álagið er síðan aukið hægt og bítandi eftir því hvernig bata leikmanns fleygir fram.